Margnota furoshiki innpökkunarklútar frá FabRap

Þær eru fjölmargar leiðirnar og aðferðirnar sem við getum notað til að draga úr sóun og oft á tíðum þurfum við ekki að gera annað en líta aðeins í baksýnisspegilinn og skoða það sem gert var hér áður fyrr til að sjá hvernig fólk fór að.

Ein þeirra leiða er að nota innpökkunnarefni aftur og aftur sem við höfum reyndar áður fjallað um og sjá má hér. Núna ætlum við hins vegar aðeins að fjalla um furoshiki innpökkunaraðferðina og nýja merkið okkar, FabRab sem við höfum hafið sölu og dreifingu á. FabRab framleiðir innpökkunarefni úr 100% GOTS vottuðu bómullarefni, sem stenst tímans tönn og er innblásið af furoshiki aðferðinni og indverskum vefnaði. Það er gullfallegt, tímalaust, auðvelt í notkun og margnota. En fyrst...

..hvað er furoshiki?

Furoshiki er heiti yfir faldaðan ferhyrndan klút og á rætur sínar að rekja til Japan. Furoshiki innpökkunaraðferðin er æfaforn og var upphaflega notuð til að pakka inn fötum þegar flytja þurfti þau á milli, undir matvöru, annan varning eða til að pakka inn gjöfum. Það liggur í hlutarins eðli að klútinn mátti nota aftur og aftur enda kannski ferðatöskur, innkaupapokar og gjafapappir ekki á hvers manns færi á þessum tíma. Í dag er öldin önnur og ofgnótt af öllu allsstaðar og annars konar vandi sem steðjar að okkur heldur en þá. Hér væri kannski ráð að renna yfir í huganum hvað leynist í skápunum eins og; slæður, tóbaksklúta, tauservíettur eða gamla ferhyrnta jóladúka og athuga hvort ekki mætti nýta eitthvað af því sem innpökkunarefni þessi jólin! Því þú getur í raun kalla allt ferhyrnt efni furoshiki, þ.e.a.s ef jaðrarnir eru faldaðir.

Innpökkun:

Það er jafn einfalt að pakka inn í furoshiki eins og að reima skóna. Þumalputtareglan við innpökkunina er sú að hafa efnið um þriðjungi lengra, horn i horn, heldur en hluturinn er sem pakka á inn. Þú þarft hvorki skæri né límband því einfaldur, hefðbundinn hnútur leysir slík tól af hólmi og betra að hafa klútinn aðeins of stóran en of lítinn. Auðvelt er að pakka inn erfiðum hlutum eins og skál, bolta, blómavasa eða sambærilegu og þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að hornið á kassanum rífi pappírinn eins og fjölmargir kannast eflaust við og hafa þá jafnvel framkallað heillanga orðræðu í kjölfarið. Pakkann má svo merkja eða skreyta að vild með því sem til er heima eða finnst jafnvel út í garði.

Um klútana frá FabRap

Klútarnir eru eins og áður sagði úr 100% GOTS vottaðri bómull og mynstrið á klútunum er höfundaréttarvarið. Hægt er að fá þá bæði einfalda eða tvöfalda og þá eru tvö mismunandi lituð efni saumuð saman sem kemur afar skemmtilega út við innpökkun. Þá getur þú líka valið hvor liturinn er ríkjandi við innpökkunina. Enn sem komið er eru til þrjár stærðir hjá okkur: 35x35 cm 55x55 cm og 75x75 cm og 105x105 er væntanlegt.

Stærðartafla FabRap

Klútarnir frá FabRap koma í endurunnu og endurvinnanlegu pappírsumslagi með leiðbeiningum aftan á. Í umslaginu er jafnframt kort (á ensku) sem útskýrir fyrir þiggjanda hvað gera skuli síðan við efnið. Sumir vilja fá það til baka eftir jól til að nota næstu jól og ef efnið er notað fyrir afmælisgjafir eða tækifærisgjafir má taka það strax til baka, þ.e.a.s ef viðtakandi hefur opnað gjöfina. Aðrir láta það fylgja sem hluta af gjöfinni sem gerir gjöfina enn fallegri með þeirri hugsun sem liggur að baki. Þiggjandi er þá hvattur til að nota klútinn síðar og halda þannig áfram að draga úr sóun. Margir byrja smátt með einum og einum klút og með því að halda klútunum gangandi innan fjölskyldunnar sem er stórsnjallt á meðan við breytum jólapappírshefðinni. Slagorð FabRap er einmitt ,,Change the way we give". Ef þér dettur í hug smellin þýðing á íslensku, endilega sendu okkur línu. 

 

Getur mögulega verið að tíminn á milli jóla sé eitthvað að styttast, eða líður tíminn bara alltaf hraðar og hraðar?

Allavega, þá er ekki nema rétt rúmur mánuður til jóla og okkur finnst eins og við höfum fyrst verið í sambandi við hana Hemu hjá FabRap núna rétt fyrir helgi. En,  það var víst á vordögum og þá var sko nægur tími til stefnu og eiginlega bara rugl að fara að spá í jólainnpökkun.

En nú eru FabRap innpökkunarklútarnir loks mættir til okkar, okkur til ómældrar gleði, ánægju og yndisauka og við vonum svo sannarlega að þeir eigi eftir að hjálpa þér við að minnka jólapappírsflóðið á þínu heimili. 

Til baka í fréttir